Mig langaði að deila með ykkur fæðingarsögunni minni þar sem ég veit að mörgum finnst gaman að heyra allskonar tengt fæðingu. Mér sjálfri finnst mjög gaman að heyra allskonar sögur enda magnað að koma barni í heiminn.
Nú var þetta mín önnur fæðing og gekk hin fæðingin mjög hratt fyrir sig og var ég pínu stressuð fyrir því að það myndi gerast aftur en oft er talað um að seinni fæðingar geti gengið hraðar fyrir sig en alls ekki alltaf samt. Eins og þið sem hafið fylgt mér lengi vitið að ég er ekki mikið fyrir óvissu og hefði helst viljað geta planað hvenær hann kæmi reyndi ég eins og ég gat að spá ekki í hvernig þetta myndi fara og mér fannst það hjálpa mér helling í að minnka stressið og kvíðann.
En að fæðingunni, ég vaknaði kl.03:00 aðfaranótt laugardags 24.febrúar með smá verki sem ég var alveg viss um að væru fyrirvara verkir og ekkert væri að gerast. Ég náði að sofna til 08:00 og vaknaði þá aftur með eins verki sem stóðu yfir í 2 tíma en duttu svo fljótt niður. Planið þennan laugardaginn var þannig að Maísól færi til mömmu eftir hádegi og fengi að gista hjá henni í verðlaun fyrir að vera hætt með bleyjuna og ákváðum við bara að halda okkur við það.
Þegar Maísól var farin í pössun til mömmu fórum við Frans út um kl.15 og fengum okkur að borða og byrjaði ég þá að fá mikla verki með reglulegu milli bili. Við drifum okkur heim og tókum því rólega yfir mynd í um klukkutíma en þá voru verkirnir orðnir mjög miklir og alltaf að styttast á milli. Rétt yfir 16:00 hringi ég niður á deild og vildi láta þær vita af mér og sagði þeim að fyrri fæðing hefði nánast átt sér stað á ganginum hjá þeim og að ég væri orðin frekar stressuð fyrir því að þetta myndi fara gerast en samt 8-9 mínútur á milli hjá mér.
Hún sagði mér að koma bara þegar ég vildi en að það væri alltaf leiðinlegt að vera sendur heim og að staðan á spítalanum væri þannig að það gæti verið að þær vildu senda mig heim ef það væri ennþá langt á milli. En eins og síðast á nokkrum mínútum byrjaði styttast mikið á milli verkja og ákváðum við að drífa okkur bara niður eftir og láta athuga stöðuna.
Þegar við komum niður á spítala um 17:30 fengum við yndislegan nema sem ljósmóður, henni fannst ég full róleg miðað við sutt á milli verkja og ákvað að athuga útvíkkunina og kallaði eftir aðstoð við að vera viss um að ég væri komin með fulla útvíkkun sem reyndist vera. Við vorum svo færð yfir í fæðingarstofu rétt yfir 18:00 og kom hann í heiminn um 40 mín seinna eða 18:59.
Fæðingin sjálf hefði ekki getað gengið betur, eftir þriðja rembinginn missti ég vatnið framan í nemann sem kippti sér lítið upp við það enda kom kollurinn um leið haha! Og svo í fjórða rembing eftir að kollurinn var kominn fékk ég að taka á móti honum sjálf sem er eitt það magnaðasta sem ég hef upplifað!
Litli tók síðan brjóstið um leið og gekk svo vel að hann var að brjóstinu í 2 tíma áður en hann var vigtaður og mældur en hann var 12,5 mörk eða 3170gr og 51cm. Við fengum síðan að fara heim eftir 6 tíma eða um miðnætti eftir læknisskoðun. En ástæðan fyrir því að við fórum svona snemma heim var sú að allt gekk mjög vel og við vildum frekar fara heim heldur en að deila herbergi með öðrum yfir nóttina.
Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með okkur fjölskyldunni í framtíðinni <3
Hér er hægt að lesa fyrri fæðingarsögu.