Fyrstu dagarnir með hann hafa gengið eins og í sögu! Hann er duglegur að drekka og sofa og við gætum ekki beðið um neitt betra <3
Þar sem við erum með annað lítið barn var ég búin að hugsa vel út í það hvernig við ætluðum að hafa þetta þegar hann kæmi til að raska sem minnst rútínunni á heimilinu og fyrir Maísól en ég kveið því pínu að hún yrði afbrýðisöm eða tæki þessum breytingum illa.
Maísól er 2,5 árs og er á aldri þar sem allt er hennar, hún á hitt og þetta og hræddi það mig að hún yrði eigingjörn á mig þegar að barnið kæmi. En ég byrjaði strax á því þegar ég var ólétt að segja henni að litla barnið ætti mömmu líka og ömmu og alla sem hún telur upp að hún eigi til að undirbúa hana aðeins.
Einnig sýndi ég henni myndir af henni ný fæddri til að búa hana undir hvernig litla barnið væri því flestir krakkar í hennar huga voru lítil börn. Ég sýndi henni líka myndir af henni þegar ég var með hana á brjósti til að geta útskýrt fyrir henni áður en barnið kom í heiminn.
Eftir að við komum heim af fæðingardeildinni þá kom mamma með hana heim en ég bað mömmu um að segja ekkert við Maísól varðandi að hann væri kominn í heiminn heldur vildi ég bara að hún kæmi heim og við gætum tekið á móti henni og sýnt henni barnið. Það gekk eins og í sögu, hún kom heim og ljómaði af gleði þegar hún sá litla bróður sinn. Ég viðurkenni þetta er eitt fallegasta augnablik sem ég hef upplifað og grenjaði ég út í eitt þegar ég sá svipinn á henni og hvað hún var yndislega góð við hann alveg frá byrjun. Og kom svo í ljós að hún skildi meira en við gerðum okkur grein fyrir því hún hljóp beint til ömmu sinnar og sagði að barnið væri komið úr maganum á mömmu og ég væri ekki lengur með stóra bumbu haha ! 😀
Við ákváðum að reyna banna henni ekki neitt i kringum hann, frekar að leiðbeina henni og kenna henni að umgangast litla bróður sinn. Þrátt fyrir að allar pestirnar séu búnar að vera í hámarki í vetur og stressandi að vera með leikskólabarn í kringum svona lítið kríli hef ég alls ekki verið stressuð með það. Ég passa mig bara að vera mjög mikið með Maísól í fanginu og ofaní henni til að ég myndi mótefni fyrir hann ef hún verur lasin, svona á meðan ég er með hann á brjósti allavega. Eftir leikskóla pössum við að hún þvoi sér vel um hendurnar og andlitið þar sem hún er mikið að kyssa hann á höfuðið og fyrstu 2 vikurnar skiptum við um föt á henni þegar hún kom heim. En hún fær að hjálpa til við að skipa á honum, velja föt á hann og halda á honum og hefur gengið vonum framar. Ég passa mig samt að knúsast og leggja mig með honum yfir daginn á meðan hún er í leikskólanum og nýt þess svo að sinna henni eftir leikskóla.
Varðandi rútínuna þá er það þannig hjá okkur að Frans fer alltaf með hana í leikskólann og ég sæki og við pössuðum að breyta því ekki. Einnig á kvöldin þá baðar Frans hana á meðan ég geng frá eftir matinn og við skiptumst svo á að lesa fyrir hana og hefur það ekkert breyst. Ég hef ekki ennþá fundið fyrir því að hún fái einhverja höfnun enda erum við mjög mikið að passa að halda okkar striki og bæta honum inn í okkar líf en ekki breyta öllu í kringum hann 🙂
Varðandi heimsóknir þá fórum við öðruvísi að því núna heldur en með Maísól litla. Reyndar mikill munur á því að eiga barn í júlí þegar allir eru í sumarfríi og í febrúar en við takmörkuðum heimsóknir alveg fyrstu 10-14 dagana nema foreldra okkar. Ástæðan fyrir því er sú að ég var mjög lengi að koma mjólkinni upp síðast, ég náði ekki að hugsa nógu vel um að borða, drekka og leggja mig ef ég var þreytt fyrstu dagana með hana og bitnaði það bæði á mér og henni. Ég vildi því gera þetta öðruvísi núna og ég viðurkenni að það var bæði mjög næs að fá fyrstu dagana alveg í friði og líka erfitt að biðja nánasta fólkið um að gefa okkur tíma til að kynnast. En núna eftir á sé ég alls ekki eftir því þegar mjólkin er kominn á fullt og komin ákveðin rútína á mig að passa mig að borða og drekka nóg.
Ég vona að þetta svari spurningum margra sem ég er búin að fá síðustu daga <3