Maísól hefur aldrei verið erfið með svefn og sofnaði alltaf sjálf og í sínu herbergi frá 6 mánaða þangað til hún varð eins árs. En þegar hún var eins árs sem sagt fyrir ári síðan breyttist hellingur í okkar rútínu. Hún byrjaði í leikskóla og ég í skóla sjálf. Það voru mikil viðbrigði þar sem við vorum búnar að vera saman allan daginn alla daga í heilt ár í fæðingarorlofi sem var yndislegur tími!
Eftir að þessar breytingar áttu sér stað tók ég sjálf ákvörðun um að svæfa hana uppí hjá okkur á kvöldin og sé ég alls ekki eftir því. Þetta varð bara okkar tími með henni, lesa bók og knúsast þangað til hún sofnaði. Þetta var yndislegur tími en núna ári seinna og annað barn á leiðinni ákváðum við að breyta aðeins. Hún er komin í stórt rúm og vorum við farin að liggja inni hjá henni óþarflega lengi og bara orðið vesen.
Við ákváðum að útskýra fyrir henni vel breytingarnar áður en hún færi að sofa, nú myndum við bara lesa saman bók og bjóða góða nótt, setja geislaspilarann í gang með Línu Langsokk og mamma eða pabbi myndu sitja við rúmið hjá henni á meðan hún sofnaði. Úff fyrstu tvö kvöldin voru hræðileg en Frans gaf sig ekki og sat inni hjá henni í örugglega meira en 2 tíma í senn bæði með hana brjálaða eða sparkandi í rúmið og vegginn í leit af athygli.
Með hverju kvöldinu sem leið færðum við okkur aðeins nær hurðinni og alltaf varð hún meira og meira stressuð um að við myndum fara fram. Hún sagði á hverju einasta kvöldi ,,mamma sitja,, eða ,,pabbi sitja,,. Á meðan við sátum inni hjá henni snérum við þannig að við sæjum hana ekki og sögðum ekki orð við hana eftir að búið var að bjóða henni góða nótt. Þrátt fyrir að hún væri að sparka og eitthvað að brölta sátum við föst á okkar stað og stundum var það mjög erfitt að segja ekkert og bara bíða haha!
En þetta hafðist á um viku en ég kveið mest fyrir því að segja henni að ég ætlaði að sitja frammi í sófanum en ekki á gólfinu inni hjá henni á endanum þegar þessu ferli væri að ljúka. En í gær var það fyrsta kvöldið sem ég sagði við hana að ég ætlaði ekki að sitja inni hjá henni heldur frammi og hún sagði ekkert nema bauð mér góða nótt og lagðist niður.
Ég er ótrúlega stolt af henni þar sem hún er mikill knúsari og kúrari og vill helst liggja eins nálægt manni og hún getur eða halda í mann og knúsa mann á meðan hún sofnar. En nú sit ég frammi á kvöldi númer tvö sem hún sofnar alveg sjálf og ég viðurkenni ég er ennþá að venjast þessu!
Við lásum okkur aðeins til um nokkrar aðferðir áður en við fórum í þessa breytingu og tókum góðum ráðum á nokkrum stöðum sem við nýttum okkur og komu þau sér að góðum notum. Ég ætla deila þeim punktum sem við fórum eftir með ykkur hér.
- Bara ein snudda og bangsi, ekki eitthvað dót eða annað uppí rúminu.
- Alltaf hafa sömu rútínu áður en farið er að sofa, náttföt, bursta, lesa, bjóða góða nótt og síðan fara sjálf að sofa.
- Foreldrarnir að passa sig að skipta sér ekkert af þegar búið er að segja góða nótt, bara fara inn og setja snudduna uppí þau og breiða sængina yfir ef þess þarf, engin athygli eða önnur þjónusta í boði.
- Taka sér tíma í þetta og vera þolinmóð.
- Gott er að annað foreldrið taki þetta að sér eða bæði mjög samstíga og með sömu aðferðir.
Eina sem ég hef áhyggjur af er að ef hún fer annað í pössun eins og t.d. til mömmu hvernig hún verði þar, mun hún sofna sjálf þar eða eru aðrar reglur hjá ömmu og afa ? .. Sumir segja að börnin viti alveg að það séu reglur heima en oft öðruvísi á öðrum stöðum en það er eitthvað sem við eigum eftir að komast að með tímanum 😀
En munurinn sem ég finn strax er hvað hún er mikið fljótari að sofna, þá erum viðað tala um 10-15 mín í staðinn fyrir 40-60 min eins og var áður þegar við láum inni með henni. Hún rumskar ekkert á kvöldin/nóttunni og auðvitað auka tíminn sem við Frans eigum saman á kvöldin! 😀