Það er eiginlega magnað að ég hafi ekki haft þessa færslu inni þegar ég opnaði síðuna haha! En hlutföllin í ediksblönduna er spurning sem ég fæ óteljandi oft enda eina efnið sem ég nota í sprey-formi.
Fyrir þá sem eru forvitnir afhverju ég noti einungis edik til að þrífa er það mjög einfalt. Eftir að ég átti Maísól fór ég að spá meira í sterkum efnum og öðru sem var í notkun á heimilinu. Hún setti allt uppí sig og sleikti allt sem að kjafti komst á tímabili og stóð mér þá ekki á sama að þrífa allt með sterkum efnum.
Að þrífa með ediki og vatni er eldgömul aðferð sem margir kannast við og hef ég nýtt mér það svona líka mikið. En ég slumpa í fína IKEA brúsann minn bara botnfylli og fylli rest með vatni. Mörgum finnst lyktin af edikinu hörmung og skil ég það mjög vel enda nota ég ilmdropa til að koma í veg fyrir edikslykt. En mér finnst lavender lyktin best.
Mér finnst droparnir frá Now bestir en lyktin af þeim endist best í vatnsblöndunni. Droparnir fást á mjög mörgum stöðum eins og t.d. apótekum, Hagkaup, Fjarðarkaup og Blómavali 🙂
Þrátt fyrir að ég slumpi í brúsann minn þá er ég með uppskrift af hlutföllunum fyrir þá sem vilja :
1 dl borðedik 4-5%
3 dl vatn
2-3 ilmdropar
Ediksblandan virkar einstaklega vel á gler og spegla þar sem það skilur ekki eftir sig nein för. Einnig virkar hún vel í eldhúsinu þar sem edikið eyðir upp fitu. En ég nota hana í allt og ekkert sem ég hef komist að núna í 2 ár sem hún virkar illa á. Ef þið eruð að lenda í því að það komi rákir á spegla og annað og notið edik myndi ég athuga hvernig tuskurnar ykkar séu orðnar lúnar eða jafnvel henti ekki á spegla 🙂
*Þessi færlsa er ekki kostuð eða unnin í samstarfi*