Ég er oft mjög forvitin að heyra fæðingarsögur annarra og veit að margir eru eins og ég, sérstaklega konur með fyrsta barn. Ég ætla að deila með ykkur minni sögu en hún gekk mjög hratt fyrir sig og mun ég því fara um leið upp á spítala á þessari meðgöngu ! 😀
Ég vaknaði klukkan 7 um morguninn á settum degi með verki sem mér fannst líkjast túrverkjum. Kvöldið áður var ég og mamma úti að hjóla í þvílíkt góðu veðri og var ég ekki farin að finna fyrir neinu. Þarna um klukkan 7 hringdi ég upp á deild eins og ljósmóðirin mín var búin að ráðleggja mér og fá að tala við þær. Eins og ég lýsti í annarri færslu þá var konan silkislök og sagði við mig að fæðing væri nú eflaust ekki farin af stað. Ég lagðist þá bara aftur upp í rúm og náði að sofna til 11. Ég vakna um 11 með aðeins meiri verki og voru hríðarnar í ca30-40 sekúndur í einu. Ég hringi aftur niður á deild og hún segir mér að ekki vera hringja fyrr en það séu 2-3 mínútur á milli hríða, þá voru 7-9 mínútur á milli hjá mér.
Um klukkan 1 er Frans farinn að verða frekar stressaður og biður mig allavega að pakka dótinu mínu ofan í tösku svo við verðum tilbúin að fara. Um leið og ég stóð upp þá fann ég hvað það var mikið í gangi í líkamanum. Ég fékk mér aðeins að borða en ældi því öllu. Þá tók Frans fram fyrir hendurnar á mér og brunaði með mig niður á spítala. Ég var alveg föst með það í hausnum að það væru sko ekki 2-3 mín á milli hríða en í bílnum á leiðinni byrjaði allt!! Frans lét mig út beint fyrir utan meðan hann lagði bílnum og var ég þá með tilfinningu eins og ég þurfti að pissa, ég bara gaaat ekki haldið í mér!! Við fórum upp með lyftunni sem ætlaði að taka heila eilífð en loksins þegar við komum upp segir stelpan, jáá eru með skýrsluna með þér ? ÞAÐ VAR EINA SEM FRANS ÁTTI AÐ MUNA!! En neinei hann hleypur út í bíl og stelpan segir við mig ,,jáá það er smá bið,, SMÁ BIÐ!?!? Ég var þá orðin rennandi sveitt og alveg að pissa í mig að ég hélt en samt ekki með neina sársaukafulla verki. Hann kemur loksins með þessa blessuðu skýrslu og stelpan lætur okkur bíða endalaust á ganginum eftir ljósmóður.
Loksins opnast hurðin og kemur þessi yndislega kona sem tekur við okkur. Ég settist á bekkinn í skoðunarherberginu og segi henni að þetta sé fyrsta barn en ég sé með svakalega tilfinningu eins og ég þurfi á klósettið. Hún segir þá við mig ,,jááá já fyrsta barn segirðu, þetta tekur allt svo langan tíma,, en rekur svo upp stór augu og segir JÁ! Hvað ertu búin að vera með verki lengi ?!? Þarna var klukkan rúmlega 2 og ég segi við hana ,,mmm svona síðan um 7-8 í morgun.,, Hún er eitthvað svo skrítin á svipinn og spyr mig hvort ég treysti mér til að standa upp og ég hélt það nú en um leið stoppar hún mig og segir ,,sko ef þú missir vatnið á leiðinni yfir í fæðingarherbergið þá gæti barnið komið með í næstu hríð svo farðu varlega!,, Ég labbaði þarna á milli eins og mörgæs að reyna halda í mér og leggst á bekkinn á meðan hún tengir mig við öll tæki og tól. Hún segir svo við mig að tilfinningin sem ég fékk eins og ég þurfi að pissa sé sú að ég þurfi að rembast. Ég hafði þá verið að halda í mér rembingnum og höfuðið á Maísól komið vel út á biðstofunni. 10 mínútum eftir að ég lagðist í rúmið á fæðingarstofunni var hún fædd og fæddist hún í belgnum sem er kallað að fæðast í sigurkufli.
Mín fæðing gekk eins og í bíómynd, ég gjörsamlega hnerraði henni út. Ég var aldrei að deyja úr verkjum og hlakka ég mikið til að sjá hvernig þessi meðganga núna verði eins eða bara allt annað. Ég er allavega búin að fá ráðleggingar hjá ljósmæðrum á þessari meðgöngu að fara strax niður á spítala þegar ég byrja fá verki.
Nokkrum mínútum áður en ég fór upp á spítala & fyrsta myndin af Maísól <3